Eimskip gerir breytingar á gámasiglingakerfi

24. september 2019
Eimskip mun um miðjan október gera breytingar á gámasiglingakerfi félagsins til að auka þjónustu við viðskiptavini og hagræða í rekstri. Breytingarnar eru mikilvægur hlekkur á vegferð félagsins til hagræðingar og styrkingar á grunnstoðum í rekstri. Einnig eru breytingarnar undanfari á samstarfi við Royal Arctic Line (RAL) sem áætlað er að hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Breytt siglingakerfi mun einfalda siglingaleiðir til og frá Evrópu og Skandinavíu og gera félaginu kleift að bjóða brottfarir frá Árósum og Rotterdam til Íslands degi síðar en nú er ásamt styttri flutningstíma. Eimskip mun áfram bjóða hraðþjónustu fyrir útflutning og innflutning á ferskum vörum til og frá Íslandi og Færeyjum.

Félagið mun fækka um eitt skip í Evrópu hluta kerfisins en á móti taka í notkun stærri skip og þar með viðhalda sambærilegri flutningsgetu, en með lægri einingakostnaði. Nýlegar fjárfestingar í hafnaraðstöðu í Sundahöfn, með stækkun gámahafnar, nýjum gámakrana og stærri viðlegu er forsenda þess að geta tekið inn stærri og hagkvæmari skip.

Eimskip mun formlega hefja rekstur á nýju siglingakerfi um miðjan október.

Helstu áherslur:
  • Aukin og bætt þjónusta við viðskiptavini í innflutningi til Íslands með brottför einum degi seinna frá helstu höfnum í Evrópu og styttri flutningstíma sem skapar aukin tækifæri fyrir innflutning á ferskum vörum
  • Einfaldari siglingaleiðir með stærri skipum auka áreiðanleika í siglingakerfinu
  • Rauða leiðin (Skandinavía) er tilbúin fyrir samstarf við RAL í samræmi við samning um samnýtingu á plássi í skipum (VSA) sem hefst formlega með afhendingu tveggja nýrra 2150 TEUS skipa
  • Skipum í gámasiglingakerfinu fækkað um eitt
  • Sambærileg afkastageta með stærri skipum og lægri einingakostnaði
  • Markmið um nettó lækkun rekstrarkostnaðar fyrir heildarbreytingarnar, þ.m.t. samstarf við RAL, er á bilinu 7-9 milljónir evra á ársgrundvelli en mun ekki koma fram að fullu fyrr en samstarfið við RAL hefst og er markmiðið með fyrirvara um breytingar á nokkrum mikilvægum rekstrarforsendum
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:

“Eimskip hefur á undanförnum mánuðum verið á vegferð til aukinnar arðsemi og styrkingar á grunnstoðum félagsins. Breytingarnar á gámasiglingakerfinu sem við kynnum í dag eru mikilvægt skref á þeirri vegferð, sem að auki gerir félaginu kleift að auka þjónustu við viðskiptavini og áreiðanleika í kerfinu. Við erum að straumlínulaga siglingakerfið með færri og stærri skipum á einfaldari siglingaleiðum þannig að við getum flutt sambærilegt magn, með færri viðkomum í höfnum og með þeim hætti lækka einingakostnað. Að auki munu þessar breytingar leggja grunninn að áætluðu samstarfi við RAL.

Það er ánægjulegt að geta boðið viðskiptavinum styttri flutningstíma frá helstu höfnum í Evrópu til Íslands með brottför degi seinna sem skapar tækifæri í innflutningi á ferskum vörum. Einnig mun nýja siglingakerfið styrkja útflutningsþjónustu frá Færeyjum og vera vel í stakk búið að styðja við frekari vöxt í Trans-Atlantic þjónustu.

Markmið félagsins um nettó lækkun rekstrarkostnaðar fyrir nýja siglingakerfið, þ.m.t. samstarf við RAL, er á bilinu 7-9 milljónir evra á ársgrundvelli. Það er hinsvegar mikilvægt að taka fram að markmið er háð nokkrum mikilvægum forsendum s.s. skilvirkni og áreiðanleika nýrra skipa og leiguskipa, skilvirkni í hafnarstarfsemi, samstarfinu við RAL og þróun olíumarkaða.“

Helstu breytingar á leiðum:

Rauða leiðin mun sinna Skandinavíumarkaði og er mikilvæg flutningsleið fyrir Færeyjar og mun einnig bjóða uppá styttri flutningstíma frá Árósum til Íslands með brottför degi síðar en er í dag. Goðafoss og Laxfoss sem eru 1460 TEUS munu tímabundið vera á þessari leið eða þar til nýju 2150 TEUS skipin Brúarfoss og Dettifoss koma í rekstur og samstarf við RAL sem áætlað er að hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2020. Í núverandi kerfi er Skandinanvíumarkaðurinn þjónustaður með tveimur siglingaleiðum, rauðu og bláu leiðinni með þremur viðkomum á viku í Árósum. Í breyttu kerfi þjónustar ein leið Skandinavíumarkaðinn með vikulegri þjónustu, með stærri skipum og færri viðkomum sem hefur í för með sér lægri einingakostnað.

Blá leiðin mun áfram vera hraðþjónusta á milli Reykjavíkur og Rotterdam. Leiðin mun hætta að sigla til Skandinavíu sem mun opna á hraðþjónustu frá Rotterdam til Reykjavíkur með styttri flutningstíma og brottför frá Rotterdam degi seinna. Félagið hefur tekið á leigu tvö 1800 TEUS skip fyrir leiðina sem eru stærstu gámaskip í áætlunarsiglingum til og frá Íslandi. Í núverandi kerfi eru þrjár leiðir með viðkomu í Rotterdam sem verður fækkað í tvær leiðir með stærri skipum og færri viðkomum.

Gula og Gráa leiðin verða sameinaðar í eina leið sem áfram mun sinna útflutningsþjónustu frá Íslandi og Færeyjum til Immingham og Rotterdam og veita hraðþjónustu fyrir flutning á ferskum fiski til Bretlands. Leiðin mun þjóna strandsiglingum við Ísland hálfsmánaðarlega rangsælis um landið. Í dag eru tvö 900 TEUS og eitt 700 TEUS skip á þessum leiðum en með breytingunni munu 900 TEUS Lagarfoss og 700 TEUS Selfoss vera á henni.

Fjólubláa leiðin mun áfram sinna vikulegum flutningum á ferskum fiski frá Færeyjum til Skotlands. Að auki mun leiðin verða notuð hálfsmánaðarlega til að forflytja innflutning til Íslands frá Immingham í gegnum Færeyjar. Í dag er frystiskipið Svartfoss á þessari leið en með breytingunni verður skipt yfir í 350 TEUS skip til að sinna þessari leið.

Græna leiðin verður óbreytt og mun áfram bjóða vikulega þjónustu á milli Íslands og Norður-Ameríku með þremur 700 TEUS skipum.

Í tenglsum við breytingarnar mun félagið skila þremur skipum; 900 TEUS Bakkafossi sem verið hefur á gulu leiðinni og 1000 TEUS skipunum Perseus og Pollux sem hafa sinnt þjónustu á rauðu leiðinni. Frystiskipið Svartfoss verður fært af fjólubláu leiðinni yfir í þjónustu við Noreg á appelsínugulu leiðinni. Goðafoss og Laxfoss verða seld þegar nýju skipin Brúarfoss og Dettifoss koma í þjónustu félagsins.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttur, markaðs- og samskiptastjóri í síma 825-3399 eða investors@eimskip.is