Eimskip gerir breytingar á siglingakerfi félagsins

26. janúar 2015 | Fréttir

Eimskip hefur ákveðið að sameina grænu og rauðu leiðirnar í siglingakerfi félagsins frá og með miðjum febrúar. Græna leiðin hefur þjónað flutningum á milli Íslands og Norður-Ameríku með viðkomu í Sortland í Noregi og hafa gámar með uppruna í Evrópu og Skandinavíu náð tengingu við grænu leiðina með umskipun í Reykjavík. Rauða leiðin hefur hins vegar þjónað siglingum á milli Íslands og Evrópu ásamt því að sinna strandsiglingum á Íslandi. Með sameiningu þessara tveggja leiða skapast grundvöllur fyrir aukinn áreiðanleika þjónustunnar við flutninga á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Sameinuð leið mun bera nafn grænu leiðarinnar og eftir sem áður munu þrjú gámaskip sinna þessari nýju leið. Munu þau sigla óslitið á milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu í að minnsta kosti þremur höfnum á Íslandi fyrir íslenska inn og útflytjendur.

Viðkomuhafnir á grænu leiðinni verða áfram þær sömu og á eldri leiðum en með breytingunni næst samfelld þjónusta á milli Evrópu og Norður-Ameríku og ekki þarf að umhlaða gámum í Reykjavík eins og áður. Breytingin styrkir einnig enn frekar sölu á flutningum á milli Norður-Ameríku og Evrópu og tryggir betur áreiðanleika þjónustunnar þar sem tengingar á milli mismunandi leiða félagsins hafa ekki alltaf náðst, ekki síst vegna slæms veðurfars. Með breytingunni eykst tíðni ferða á milli Evrópu og NorðurAmeríku um allt að fimm ferðir á ári.

Gylfi Sigfússonforstjóri
Það er ánægjulegt að geta boðið upp á aukna tíðni ferða og samfellda þjónustu á milli Evrópu og Norður-Ameríku þar sem flutningsmagn hefur verið að aukast til og frá Bandaríkjunum og Nýfundnalandi. Með breytingunni komum við einnig betur til móts við þarfir viðskiptavina okkar um óslitna flutningakeðju.