Rekstrarhagnaður fyrstu 9 mánuði ársins er 5 milljarðar króna

19. janúar 2010 | Fréttir

Hagnaður Eimskips fyrstu níu mánuði árins er umfram væntingar þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði. Heildarvelta samstæðunnar var 46 milljarðar króna og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjámagnsliði var jákvæður um 5 milljarða króna. Hagnaður eftir skatta var 1,5 milljarðar króna. Heildareignir félagsins í lok september voru 45 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfallið 54,3%. Vaxtaberandi skuldir eru 11 milljarðar króna.

3. ársfjórðungur 2010
Rekstrarhagnaður á þriðja ársfjórðungi er jákvæður um 1,7 milljarða króna og hagnaður eftir skatta er 300 milljónir króna. Afkoma á þriðja ársfjórðungi er umfram væntingar.
Árstíðarbundnar sveiflur í flutningum á Íslandi eru að breytast og magnið á þriðja og fyrsta ársfjórðungi er það sama, sem er ekki í takt við árstíðarbundnar sveiflur undanfarinna ára. 

Gylfi Sigfússon forstjóri:
Það er ánægjulegt að sjá að þetta er fjórði ársfjórðungurinn í röð eftir að fjárhagslegri endurskipulagningu lauk sem skilar jákvæðri afkomu. Flutningamagnið helst stöðugt á milli tímabila en jafnframt eru árstíðabundnar sveiflur ekki eins miklar og áður tíðkaðist. Varðandi horfur með inn- og útflutning á Íslandi teljum við að botninum sé náð og að ekki sé fyrirsjáanlegur vöxtur á árinu 2011.

Starfsemin á öðrum markaðssvæðum á Norður Atlantshafi einkennist einnig af töluverðri óvissu, meðal annars í Færeyjum þar sem hluti bankakerfisins féll og nokkur fyrirtæki eiga í erfiðleikum. Markaðir í Noregi og á Nýfundnalandi eru hinsvegar í vexti vegna nýrra fjárfestingaverkefna sem og aukningar á kvóta. Eimskip er vel í stakk búið að takast á við þessa óvissutíma. Til að tryggja viðunandi innri vöxt er félagið að vinna í því að efla þjónustuframboð félagsins í Bandaríkjunum og Kanada, ásamt því að auka flutningaþjónustu félagsins í frystiflutningsmiðlun um heim allan.