Samstarf Eimskips og Royal Arctic Line samþykkt af Samkeppniseftirlitinu

17. apríl 2019 | Fréttir

Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line fengu í dag undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu um að fyrirtækjunum sé heimilt að hefja samstarf. Samstarfið er háð ákveðnum skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setur.

Í tengslum við fyrirhugað samstarf eru Eimskip og Royal Arctic Line með í smíðum þrjú 2150 gámaeininga skip sem gert er ráð fyrir að verði komin í rekstur undir lok þessa árs. Tvö af skipunum verða í eigu Eimskips og Royal Arctic Line mun eiga eitt. Skipin verða notuð í vikulegum siglingum á milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Skandinavíu. Samstarfið byggir á vel þekktri aðferðafræði í alþjóðlegum skipaflutningum, VSA (Vessel Sharing Agreement), þar sem félögin skipta með sér plássi í skipum sínum á siglingaleiðinni.

Nýju skipin, sem verða stærstu gámaskip sem Eimskip hefur haft í sinni þjónustu, eru sérstaklega hönnuð fyrir aðstæður í Norður Atlantshafi og uppfylla skilyrði um siglingar á Polar code svæðum. Með samstarfinu og stærri skipum næst fram stærðarhagkvæmni í rekstri ásamt því að nýju skipin verða umhverfisvænni og hagkvæmari. Samhliða komu nýju skipanna er gert ráð fyrir að skipin Goðafoss og Laxfoss verði seld.

Royal Arctic Line mun í tengslum við þetta samstarf geta boðið uppá flutningaþjónustu við íslenska markaðinn. Með samstarfinu tengist Grænland við alþjóðlegt siglingakerfi Eimskips en með föstum vikulegum siglingum opnast tækifæri fyrir beinar tengingar Grænlendinga inná alþjóða markaði.

Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

"Við erum ánægð með að hafa nú fengið formlegt samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir samstarfi Eimskips og Royal Arctic Line sem búið er að vera í undirbúningi í nokkur ár. Með samstarfinu opnast nýir möguleikar fyrir hagkvæmara siglingakerfi fyrir Eimskip sem og að opna nýjar leiðir í flutningum til og frá Grænlandi og þannig skapa tækifæri fyrir okkar viðskiptavini til aukinna viðskipta við Grænland. Það er einnig mikilvægt að endurnýja skipaflota félagsins með umhverfisvænni og hagkvæmari skipum og er áfangi á vegferð félagsins að auka arðsemi."