Breytingar á siglingakerfi Eimskips

08. nóvember 2018 | Fréttir

Enn betri afhendingartímar til og frá landinu

Þann 14. nóvember nk. mun Eimskip breyta siglingakerfi sínu til að mæta þörfum markaðarins um styttri afhendingartíma á ferskum og frosnum afurðum á markaði í Evrópu. Breytingarnar miða jafnframt að því að viðhalda yfirburðar þjónustustigi í innflutningi. Helstu breytingar á siglingakerfinu verða á bláu og rauðu línum félagsins.

Breytingarnar á bláu línunni eru þær að Goðafoss og Dettifoss munu sigla frá Reykjavík beint til Rotterdam á fimmtudögum og vera þar á sunnudögum. Þau munu því hætta viðkomum á Reyðarfirði og Þórshöfn í Færeyjum á leið sinni til Evrópu. Á leið sinni aftur til Íslands mun bláa línan koma við í Bremerhaven, Helsingborg, Árósum og Þórshöfn í Færeyjum. Fyrsta ferð skipanna samkvæmt þessari áætlun verður 15. nóvember nk.

Breytingarnar á rauðu línunni eru þær að Perseus og Pollux munu sigla frá Reyðarfirði á fimmtudagskvöldum til Þórshafnar í Færeyjum og þaðan til Árósa þar sem þau verða á mánudögum. Rauða línan mun tengjast gulu línunni í Færeyjum sem gefur möguleika á flutningi inn á Bretland og meginland Evrópu. Rauða línan mun áfram koma við í Swinoujscie í Póllandi og Fredrikstad í Noregi hálfsmánaðarlega. Brottför frá Reykjavík er í hádegi á miðvikudögum og er fyrsta ferð samkvæmt þessari áætlun frá Reykjavík 14. nóvember nk.

Þessar breytingar hafa í för með sér bættan afhendingartíma innflutningsvöru frá Póllandi og Skandinavíu en öll skip félagsins frá Evrópu munu nú losa í Reykjavík á mánudögum og þriðjudögum.

Áfram verður unnið að þróun á siglingarkerfi félagsins með það í huga að veita framúrskarandi þjónustu á Norður-Atlantshafi og draga úr kostnaði eins og unnt er. Nánari upplýsingar um siglingakerfi félagsins er að finna hér.