Eimskip og Slysavarnafélagið Landsbjörg hefja samstarf

14. mars 2023 | Fréttir
Eimskip og Slysavarnafélagið Landsbjörg hefja samstarf

Eimskip og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert með sér samstarfssamning þar sem Eimskip gerist einn af aðal styrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, með sérstaka áherslu á að styðja við björgunarstarf og forvarnir á sjó og landi.

Í sameiningu munu félögin vekja sérstaka athygli á slysavarnaverkefninu Örugg á ferðinni, sem snertir á öllum flötum samgangna, og sérstaklega hvetja til aukinnar hjálmanotkunar.

Saga félaganna tveggja er samofin í nærri eitt hundrað ár, en grunnur að stofnun Slysavarnafélagsins var lagður á fundi í húsi HF Eimskipafélags Íslands í Pósthússtræti 2.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips:
„Það er afar ánægjulegt að skrifa undir samstarfssamning við Landsbjörgu en félagið hefur unnið ómetanlegt starf í þágu þjóðarinnar í gegnum tíðina. Við leggjum mikla áherslu á öryggis- og forvarnarmál í okkar starfsemi. Í fjölbreyttum rekstri eins og okkar þar sem við starfrækjum skip og bíla víðsvegar um landið höfum við þurft að treysta á björgunarsveitirnar og vitum því vel af eigin raun hversu mikilvægt starf er unnið hjá þeim. Samofin saga félaganna nær aftur til ársins 1920 og við hlökkum til að hefja nú nýjan kafla í samstarfi félaganna.“

Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar:
„Við fögnum því að fá Eimskip inn í öflugan hóp aðalstyrktaraðila félagsins og stuðningur þeirra við félagið er ómetanlegur í því viðamikla starfi sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir.
Eimskip hefur látið sig slysavarnamál varða í tugi ára með góðum árangri. Ber þar helst að nefna samstarf þeirra við Kiwanis, þar sem skólabörn hafa fengi hjólreiðahjálma að gjöf.
Sameiginleg sýn félagana á mikilvægi forvarna gerir okkur kleift að halda úti enn kraftmeira starfi en ella og í sameiningu orðið enn öflugri í öryggis- og forvarnarmálum, bæði á sjó og á landi.“

Nýjasta björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sigurvin, sem staðsett verður á Siglufirði, kom til landsins í dag um borð í skipi Eimskips, og bíður nú haffæris, og mun sigla til Siglufjarðar þar sem tekið verður á móti því með hátíðahöldum þann 25. mars.

Meðfylgjandi er mynd af undirskrift samningsins, og þegar Sigurvin kom á land í Sundahöfn í dag.