Eimskip styttir vinnuvikuna

27. nóvember 2019

Síðustu vikur hefur Eimskip unnið að útfærslu á vinnutímastyttingu eins og samið var um kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og VR/LÍV í vor. Ákveðið hefur verið í samvinnu við þá starfsmenn félagsins sem eru í VR/LÍV að stytta vinnutímann hjá þeim á föstudögum um 45 mínútur en þess má geta að um 420 starfsmenn af um 800 starfsmönnum félagsins á Íslandi eru félagsmenn.

Til að gera þessa leið mögulega mun Eimskip gera breytingar á afgreiðslutímum á höfuðborgarsvæðinu og munum við frá 1.1.2020 loka afgreiðslum kl. 15:00 alla föstudaga. Þjónustuvefur Eimskips verður sem áður opinn allan sólarhringinn.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:
„Sem eitt af stærstu fyrirtækjum landsins finnum við til ábyrgðar og viljum ganga fram með góðu fordæmi þegar kemur að útfærslu á styttingu vinnuvikunnar. Við erum ánægð að geta kynnt lausn sem við teljum mikilvægan þátt í að skapa aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs fyrir starfsfólk okkar. Þessi leið hefur um leið sem minnsta röskun í för með sér fyrir viðskiptavini og gerir Eimskip jafnframt kleift að viðhalda sínu háa þjónustustigi.  Við munum á næstu vikum kynna breytingarnar nánar fyrir viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum til að tryggja að breytingarnar hafi sem minnst áhrif á þá.“

Á myndinni eru fulltrúar starfsmanna og Eimskips:  Elín Eva Lúðvíksdóttir, Herborg Árnadóttir Johansen, Örvar Sigurmonsson, Böðvar Már Böðvarsson, Vilhelm Már Þorsteinsson, Sigríður Guðmundsdóttir