Gullmerkjahafi: Eyþór Ólafsson

27. janúar 2023 | Fréttir
Gullmerkjahafi: Eyþór Ólafsson

Eyþór Ólafsson er öryggisstjóri Eimskips en hann fékk afhent Gullmerki Eimskips á afmælisdegi félagsins, 17. janúar síðastliðinn. Hefð er fyrir því að afhenda Gullmerki Eimskips á hverju ári til þeirra sem ná 25 ára starfsafmæli hjá félaginu en Eyþór hefur þó lengri tengingu við Eimskip en þau 25 ár sem hann hefur verið í starfi.

Eyþór er fæddur 29. maí 1959 og má segja að hann hafi verið viðloðandi Eimskip nánast frá fæðingu þar sem báðir foreldrar hans voru starfsmenn félagsins nær alla sína starfsævi. „Pabbi var húsvörður í Pósthússtrætinu og mamma vann þar við ræstingar seinni partinn alla daga þannig að ég var mikið í höfuðstöðvum Eimskips á fyrstu æviárunum,“ rifjar Eyþór upp en hann fékk ungur að aðstoða föður sinn við hin ýmsu verkefni í vinnunni. „Ég man að ég mátti stundum aðstoða pabba við að flagga og setja dagatöl í umslög auk þess að fara í sendiferðir, til dæmis í Pennann í Hafnarstrætinu og fleiri staði.“

Þegar Eyþór var 9 ára sigldi hann ásamt foreldrum sínum til Kaupmannahafnar með Gullfossi og fékk þá að kynnast lífinu um borð á þeim tíma. „Þetta var ævintýraleg ferð til Kaupmannahafnar með viðkomu í Leith í Skotlandi. Skipstjórinn var Kristján Aðalsteinsson og ég man að hann leyfði mér að stýra skipinu úti fyrir Dyrhólaey á heimleiðinni. Þá fékk ég að aðstoða Gulla á barnum við að opna kókflöskur í Reyksalnum svokallaða. Við fjölskyldan fengum svo að sitja við skipstjóraborðið á fyrsta farrými í matnum og það eru fjölmargar fleiri minningar sem ég á úr þessari ferð,“ segir Eyþór.


Eyþór um borð í Gullfossi og Gulli á bakvið barinn. Mynd: Eyþór Ólafsson

Þegar Eyþór var 16 ára vann hann eitt sumar á eyrinni, eins og það var kallað. Þá vann hann við lestun og losun skipa í gömlu höfninni í Reykjavík og í Sundahöfn sem þá var tiltölulega ný en á þeim tíma var nær allur farmur í lausu og engir gámar komnir til sögunnar.

Eyþór hóf störf í skiparekstrardeild Eimskips 2. janúar 1998. Megin verkefni hans í upphafi var uppsetning og innleiðing og síðar rekstur á öryggisstjórnunarkerfi fyrir skiparekstur félagsins en samhliða öryggismálunum sinnti Eyþór á tímabili einnig skipaeftirliti með þáverandi Lagarfossi og Mánafossi. Smám saman, með vaxandi ytri kröfum og metnaði innan fyrirtækisins, varð ljóst að félag eins og Eimskip þurfti að vera með aðila í hlutverki öryggisstjóra og með tilkomu reglna um siglingavernd árið 2004 varð Eyþór öryggisstjóri fyrir félagið í heild sinni og hefur hann sinnt því starfi síðan. „Það er í mörg horn að líta í þessu starfi. Þetta getur auðvitað verið mjög krefjandi á köflum en alla jafna er þetta bara skemmtilegt, enda er maður hér enn eftir 25 ár,“ segir Eyþór.

Helstu áhugamál Eyþórs eru jeppaferðir á fjöll og siglingar á seglskútum ásamt ferðalögum almennt.

Alls voru 19 starfsmenn sem fengu Gullmerki Eimskips í þetta sinn, á 109 ára afmælisdegi félagsins, en það voru:

Elísabet B. Vilhjálmsdóttir, Íslandi
Eyþór H. Ólafsson, Íslandi
Fonny van der Holt- Wilkens, Hollandi
Gíslína Guðrún Hinriksdóttir, Íslandi
Gunnar Sigríksson, Íslandi
Gunnur Björk Gunnarsdóttir, Íslandi
Hallur Egilsson, Íslandi
Hólmfríður J Guðmundsdóttir, Íslandi
Ingvar Þór Stefánsson, Íslandi
Jóhann Grétar Ágústsson, Íslandi
Karl Kristján Ágúst Ólafsson, Íslandi
Lara Konradsdottir, Noregi
Michael Berghausen, Þýskalandi
Páll Heiðar Magnússon Aadnegard, Íslandi
Sigridur Bjorg Sigurdardóttir, Hollandi
Sigrún Baldursdóttir, Íslandi
Sigrun Ingjaldsdottir, Þýskalandi
Tryggvi K. Ragnarsson, Íslandi
Verena Arndt, Þýskalandi