Uppgjör þriðja ársfjórðungs 2023

07. nóvember 2023 | Fréttir
Uppgjör þriðja ársfjórðungs 2023

HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU ÞRIÐJA ÁRSFJÓRÐUNGS

  • Góður fjórðungur þar sem helstu viðskiptaeiningar skiluðu traustri rekstrarniðurstöðu, þó að skörp lækkun á Trans-Atlantic flutningsverðum frá fyrra ári setji svip sinn á heildarniðurstöðuna.
  • Nokkuð góður fjórðungur í áætlunarsiglingum þrátt fyrir töluverðar rekstrarlegar áskoranir í fjórðungnum.
    • Áframhaldandi sterkur innflutningur til Íslands sem er drifinn af miklum umsvifum í hagkerfinu.
    • Útflutningur frá Íslandi tók við sér þegar leið á fjórðunginn í takt við væntingar samhliða auknum fiskveiðum og framleiðslu á eldislaxi.
    • Helsta ástæða lækkunar í EBITDA frá fyrra ári var gjörbreyting í Trans-Atlantic verðum milli ára ásamt minna flutningsmagni á þeirri siglingarleið vegna árstíðarsveiflu.
    • Alvarleg atvik í tveimur gámaskipum drógu tímabundið úr afkastagetu og jafnvægi í gámasiglingakerfinu og höfðu neikvæð áhrif bæði á tekjur og kostnað.
  • Alþjóðleg flutningsmiðlun skilaði  góðum ársfjórðungi í krefjandi markaðsaðstæðum þar sem sterk EBITDA framlegð byggir á sérhæfingu í frystiflutningum og tengdri þjónustu.
  • Innanlandsrekstur skilaði góðri niðurstöðu sem drifin er af miklum umsvifum ásamt bættu jafnvægi í aksturkerfi innanlands samanborið við fyrri hluta árs.
  • Met vertíð í komum skemmtiferðaskipa bæði á Íslandi og Grænlandi skilaði góðri framlegð bæði frá umboðsþjónustu og tengdri flutningsþjónustu.
  • Tekjur í fjórðungnum námu 202,0 milljónum evra og lækkuðu um 90,2 milljónir evra eða 31% samanborið við þriðja ársfjórðung 2022, einkum vegna lægri alþjóðlegra flutningsverða og samdráttar í flutningsmagni í áætlunarflutningum.
  • Rekstrargjöld námu 167,5 milljónum evra og lækkuðu um 75,1 milljón evra eða 31% frá síðasta ári, einkum vegna verulegrar lækkunar í kostnaði við aðkeypta flutningsþjónustu sem drifin er af lægri alþjóðlegum flutningsverðum.
  • Launakostnaður jókst um 1,7 milljón evra eða 5,1% vegna launahækkana en á móti vega jákvæð gengisáhrif um 0,7 milljónir evra.
  • EBITDA nam 34,5 milljónum evra sem er lækkun um 15,1 milljón frá metfjórðungi á fyrra ári en aftur á móti var EBITDA framlegð sambærileg við fyrra ár.
  • Afkoma hlutdeildarfélaga nam 4,4 milljónum evra í fjórðungnum sem er aukning um 0,5 milljónir evra frá síðasta ári.
  • Hagnaður eftir skatta nam 16,6 milljónum evra samanborið við 28,1 milljón evra á sama tímabili 2022.
  • Áframhaldandi gott sjóðstreymi, handbært fé frá rekstri nam 29,3 milljónum evra sem er lækkun um 7,9 milljónir evra frá sama fjórðungi síðasta árs, einkum vegna breytinga á EBITDA.
    • Sterk lausafjárstaða í lok tímabilsins með handbært fé að fjárhæð 47,1 milljónum evra samanborið við 46,6 milljónir evra á sama tíma í fyrra.
  • Heildar viðhalds- og nýfjárfesting í samræmi við áætlanir fyrir fyrstu níu mánuði ársins og námu 34,0 milljónum evra samanborið við 20,6 milljónir evra fyrir fyrstu níu mánuði 2022.

HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU FYRSTU NÍU MÁNAÐA ÁRSINS

  • Tekjur námu 626 milljónum evra, sem er lækkun um 189 milljónir eða 23% samanborið við sama tímabil síðasta árs.
  • Rekstrarkostnaður nam 525 milljónum evra og lækkar um 165 milljónir evra samanborið við fyrstu níu mánuði síðasta árs.
  • EBITDA nam 101 milljónum evra samanborið við 125 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs, sem er lækkun um 24 milljónir evra.
  • Hagnaður eftir skatta nam 46,1 milljónum evra, samanborið við 63,5 milljóna hagnað á sama tímabili 2022.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

“Við skiluðum góðri afkomu í fjórðungnum, á markaði sem hefur náð jafnvægi eftir mjög óvenjulegt tímabil sem einkenndist af gríðarlegum sveiflum á alþjóðlegum flutningamörkuðum. Þessar markaðsbreytingar sjást greinilega á þeirri verulegu lækkun sem við sáum bæði á tekjum og kostnaði frá fyrra ári. Þrátt fyrir þessar gjörbreyttu markaðsaðstæður, höfum við náð að halda góðri framlegð með því að einblína á framúrskarandi þjónustu, skilvirkt kostnaðaraðhald, kvika innkaupastýringu gagnvart flutningbirgjum og virka sölustýringu. Niðurstaðan er EBITDA sem nemur 35,4 milljónum evra í fjórðungnum, sem er umtalsverð lækkun frá 49,6 milljónum evra á sama fjórðungi síðasta árs, en við vorum meðvituð um að afkoman á síðasta ári var óvenjulega sterk og höfðu ytri aðstæður þar mikið að segja. Aftur á móti, ef við lítum lengra aftur og berum núverandi afkomu saman við afkomu félagsins fyrir Covid, sést að við höfum náð miklum árangri í að bæta grunnreksturinn.

Það er krefjandi að reka skipafélag í óblíðum aðstæðum Norður-Atlantshafsins og ýmis rekstrarleg atvik sem rekja má til veðuraðstæðna eru því miður hluti af okkar daglega rekstri. Við höfum ekki lagt það í vana okkar að fjalla sérstaklega um slík atvik, en hins vegar litaðist þriðji ársfjórðungur að þessu sinni af óvenju miklum rekstrarlegum áskorunum, þegar tvö lykilskip í siglingarkerfinu urðu fyrir alvarlegum bilunum á sama tíma og tvö skip fóru í reglubundna slipptöku. Þetta gerði það að verkum að tímabundið dró út afkastagetu og jafnvægi í gámasiglingakerfinu sem hafði áhrif á þjónustustig og olli tekjutapi ásamt kostnaði tengdum tilfærslum skipa og auknum gámakostnaði.

Ef litið er framhjá þessum rekstrarlegu truflunum vorum við heilt yfir ánægð með magnið í áætlunarsiglingakerfinu. Þó er undantekning í flutningum í Trans-Atlantic bæði vegna samdráttar á markaði vegna minni innflutnings  til Bandaríkjanna og hefðbundnum árstíðaráhrifum þar sem útflutningur frá Evrópu dregst almennt saman yfir sumarleyfistímann. Þetta er breyting frá síðustu tveimur árum sem einkenndust af umframflæði flutningsmagns í Covid. Innflutningur til Íslands var áfram sterkur í fjórðungnum og útflutningur frá Íslandi tók við sér eftir rólegt sumar samhliða auknum fiskveiðum og framleiðslu á eldislaxi. Magn í Færeyjum var ágætt þrátt fyrir að innflutningur til Færeyja sé heilt yfir minni en á sama tíma í fyrra og sú aukning í eldislaxi sem vænst var hafi ekki raungerst. Í Noregi var árstíðarbundin lágdeyða í útflutningi á hvítfiski sem varði helst til lengur en vænst var, en nú í fjórða ársfjórðungi höfum við séð magnið taka við sér.

Alþjóðlega flutningmiðlunin okkar skilaðri góðri afkomu og sterkri framlegð þrátt fyrir verulegar breytingar á markaðsaðstæðum þar sem alþjóðleg flutningsverð eru mun lægri en á sama tíma í fyrra. Innanlandsstarfsemi í landflutningum og vöruhúsaþjónustu skilaði góðri niðurstöðu í fjórðungnum, sem drifin var af umsvifum í hagkerfinu og auknu jafnvægi í landflutningakerfinu samhliða auknum fiskveiðum. Við höldum áfram að þróa umboðsþjónustu við skip á okkar heimamarkaði og nutum góðs af metvertíð í komum skemmtiferðaskipa þetta árið, bæði á Íslandi og Grænlandi.

Þrátt fyrir að við horfum fram á aukna óvissu í alþjóðlegu efnahagsumhverfi, þar sem merki eru um minnkandi hagvöxt og aukna spennu í alþjóðastjórnmálum, erum við almennt bjartsýn fyrir komandi mánuði. Við slíkar aðstæður, erum við sem Eimskip vel staðsett á okkar syllu í Norður-Atlantshafi þar sem við þjónustum fyrst og fremst auðug hagkerfi sem eru afar innflutnings- og útflutningsdrifin. Á Íslandi gerum við ráð fyrir sterkum útflutningi á komandi mánuðum með auknum fiskveiðum og stöðugri framleiðslu á eldislaxi, auk þess sem við höfum nú hafið útflutning á sorpi til endurvinnslu í Skandinavíu og meginlandi Evrópu, sem er vaxandi þjónusta hjá okkur. Það er jafnframt góður gangur í innanlandsstarfseminni og dótturfélag okkar, Sæferðir, undirritaði nýverið samning við Vegagerðina um rekstur Breiðafjarðarferju til ársloka 2024. Í Færeyjum eru horfur nokkuð stöðugar, en vonir standa til þess að síldarvertíð verði gjöful sem gæti skilað auknu magni inn á fjórða ársfjórðung. Trans-Atlantic magn hefur tekið nokkuð við sér eftir að þriðja ársfjórðungi lauk og flutningsverðin virðast vera að ná jafnvægi eftir skarpa lækkun það sem af er ári. Í alþjóðlegri flutningsmiðlun búum við að sérhæfingu í frystiflutningsmiðlun, sem er almennt flóknari og betur borgandi þjónusta, og minna næm gagnvart efnahagssveiflum, heldur en hefðbundinn flutningur á þurrvöru.“

KYNNINGARFUNDUR 8. NÓVEMBER 2023

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir þriðja ársfjórðung á stjórnarfundi þann 7. nóvember 2023. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 8. nóvember kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri , sími: 774 0604, netfang: investors@eimskip.com.

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími: 844 4752, netfang: investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.